Innlent

Brottvísun fyrir mótmæli?

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Breskur jarðfræðingur sem tekið hefur þátt í aðgerðum Saving Iceland á yfir höfði sér að vera vísað úr landi vegna mótmæla sinna á grundvelli almannaöryggis og allsherjarreglu.

Lögregla höfuðborgarsvæðisins hefur farið fram á það við Útlendingastofnun að vísa burt úr landi hinni 23ja ára gömlu Miriam Rose sem hefur tekið þátt í mótmælum Saving Iceland. Í sumar sat hún af sér 100 þúsund króna sekt með 8 daga fangelsisvist en dóminn hlaut hún fyrir að klifra upp í burðarvirki á vinnsusvæði Bechtel í Reyðarfirði og neita að hlíta fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa svæðið. Miriam, sem er trúlofuð íslenskum pilti, fékk nýverið bréf frá Útlendingastofnun um mögulega brottvísun og bann á endurkomu til Íslands.

Í bréfinu er vísað til tveggja greina Útlendingalaga:

- Í annarri þeirra segir að heimilt sé að vísa EES eða EFTA útlendingi úr landi - ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis.

- Í hinni stendur að brottvísun megi framkvæma ef háttsemi útlendingsins felur í sér raunverulega og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarþjóðfélagssjónarmiðum.

Ekki náðist í Miriam í dag, en Saving Iceland sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem segir að ásökun um að Miriam ógni grundvallargildum samfélagsins sé fráleit.

Ennfremur að:

"...verði henni vísað úr landi er það vegna skoðana hennar en ekki af því að íslensku samfélagi stafi ógn af veru hennar hér."

Hildur Dungal forstjóri Útlendingastofnunar sagði í samtali við fréttastofu í dag að Miriam gæti nú kynnt sínar athugasemdir og síðan yrði tekin afstaða til málsins. Um 30 útlendingum er vísað úr landi á ári hverju, langflestir eru refsifangar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×