Körfubolti

KR í úrslit

Íslandsmeistarar KR leika til úrslita um Powerade bikarinn
Íslandsmeistarar KR leika til úrslita um Powerade bikarinn
KR-ingar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleiknum í Poweradebikarnum í körfubolta með sannfærandi sigri á Skallagrími 95-70 í Laugardalshöllinni. Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Snæfell og Njarðvík, en sá leikur hefst klukkan 21.

Leikur KR og Skallagríms var jafn framan af og höfðu KR-ingar yfir 25-23 eftir fyrsta leikhluta og leiddu 45-36 í hálfleik. Í þriðja leikhlutanum má svo segja að KR hafi gert út um leikinn en staðan að honum loknum var 67-51 fyrir þá svartklæddu. Um miðjan fjórða leikhlutann fengu svo varamenn liðanna að spreyta sig eftir að úrslitin voru ráðin. Lokatölur 95-70 fyrir KR-inga.

Joshua Helm var atkvæðamestur í liði KR með 21 stig og 10 fráköst, Darri Hilmarsson skoraði 16 stig, Jovan Zdravevski skoraði 15 stig og Fannar Ólafsson skoraði 15 stig og hirti 11 fráköst. Pálmi Freyr Sigurgeirsson lék ekki með KR í kvöld vegna veikinda.

Hjá Skallagrími var Darrell Flake stigahæstur með 17 stig og hirti auk þess 9 fráköst,Milojica Zekovic skoraði 15 stig , Hafþór Gunanrsson 12 og Pétur Már Sigurðsson 11.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×