Innlent

Framsókn vill fleiri milljarða í mótvægisaðgerðir

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Framsóknarflokkurinn vill að ríkisvaldið verji fjórtán og hálfum milljarði í mótvægisaðgerðir. Hann leggur til að sjómenn og fiskvinnslufólk verði styrkt til að setjast á skólabekk og að samkeppni verði í hafrannsóknum.

Framsóknarflokkurinn kynnti í dag tillögur sínar að mótvægisaðgerðum vegna skerðingar þorskkvótans og auk þess helstu þingmál flokksins. Þingmenn Framsóknar eru ekki ýkja hrifnir af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar og sögðu þær ómarkvissar. Það væri fyrst og fremst fólkið sjálft sem þyrfti að mæta afleiðingunum og vill flokkurinn því að ríkið setji 1200 milljónir króna í átakssjóð sem atvinnurekendur geti sótt um í fyrir starfsmenn sína þegar þeir missa vinnuna tímabundið vegna skerðingarinnar. Miðað yrði við að fólkið gæti fengið styrk í allt að fjórar vikur á launum.

Við viljum taka á með byggðunum - á meðan þær bíða eftir þorskinum, segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og telur að uppsagnir síðustu daga séu aðeins toppurinn á ísjakanum.

Guðni skorar á ríkisstjórnina að endurskoða sína vitlausu ákvörðun um kvótaskerðingu. Þá leggur Framsóknarflokkurinn til að Háskóla Íslands verði falið að stunda hafrannsóknir, í ljósi deilna um Hafró.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×