Innlent

Framboðsræða í SÞ

Guðjón Helgason skrifar

Íslendingar ætla að hjálpa til við að linna þjáningar írösku þjóðarinnar með því að byggja skóla fyrir íraska flóttamenn í Jórdaníu. Þetta sagði utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi. Hún lagði áherslu á loftslags-, þróunar- og mannréttindamál og einnig aukna þátttöku kvenna á öllum sviðum þjóðlíf um allan heim.

Öryggismál voru fyrirferðamikil í ræðunni - enda Ísland að sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og bar ræðan þess merki - eins konar framboðsræða utanríkisráðherra en kosið er til setu í ráðinu eftir um ár. Ráðherra gerði nýlega ferð sína til Miðausturlanda að umræðuefni - meðal annars þegar hún kom til Jórdaníu og Sýrlands þar sem margir flóttamenn frá Írak eru nú. Íslendingar ætli að linna þjáningar Íraka með því að veita fé til Flóttamannahjálpar SÞ til að tryggja íröskum börnum í Jórdaníu nám.

Í lok ræðu sinnar vék utanríkisráðherra að framboðinu sjálfu og sagði það njóta stuðnings allra Norðurlandanna. Lönd úr þessum heimshluta væru þekkt fyrir þátttöku í SÞ og huga að hagsmunum heildarinnar. Norðurlöndin væru þekkt fyrir að miðla málum í efriðum deilum. Íslendingar ætluðu að axla ábyrgð sína og starfa af heiðarleika og ákveðni inna öryggisráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×