Sport

Pavlik lumbraði á Taylor

Pavlik fagnar sigrinum í nótt
Pavlik fagnar sigrinum í nótt NordicPhotos/GettyImages

Kelly Pavlik varð í nótt óumdeildur heimsmeistari í millivigt hnefaleika þegar hann hirti titilinn af landa sínum Jermain Taylor í Atlantic City. Taylor var álitinn sigurstranglegri fyrir bardagann en annað átti heldur betur eftir að koma í ljós.

Taylor náði að lemja Pavlik í strigann í annari lotu, en hann svaraði því með ógurlegri sókn sem kom meistaranum í opna skjöldu. Eftir góða hrynu frá Pavlik í sjöundu lotu náði hann svo að knésetja Taylor sem tapaði á tæknilegu rothöggi eftir að hann kom sér ekki upp eftir talningu.

Taylor er 28 ára og var að verja titilinn í 5. skipti eftir að hafa sigrað Bernard Hopkins á sínum tíma. Æsilegur stíll hinns 25 ára gamla Pavlik var Taylor einfaldlega um of í nótt og því gekk hann af velli með WBC og WBO beltin. Báðir keppendurnir komu taplausir inn í bardagann, sem sýndur var beint á Sýn í nótt.

Báðir eru þeir með klásúlu í samningi sínum um að mætast á ný og tóku þeir báðir vel í það þegar þeir voru spurðir út í það eftir bardagann.

"Ég trúi ekki að ég hafi tapað, ég hélt að ég væri alveg með hann," sagði Taylor gáttaður. "Ég væri til í að berjast strax aftur við hann."

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×