Innlent

Flugvél í Bónus

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Baugur gerir þokkalega vel við þá forstjóra sem standa sig í stykkinu ef marka má frétt í breska blaðinu Telegraph.

Já, það er ekki ónýtt að vera forstjóri hjá fyrirtæki Baugs þegar vel gengur ef satt er sem fram kemur í frétt á heimasíðu Telegraph nú um helgina. Þar segir að Iceland, það er, frystiverslanakeðjan Iceland sem er í eigu hóps fjárfesta sem leiddur er af Baugi, hafi gengið svo ljómandi vel á síðasta ári að Baugur hafi ákveðið að þakka forstjóranum Malcolm Walker og hans fólki fyrir uppganginn með endurnýjun á einkaþotu. Þar með hafi eldri Cessna flugvél fyrirtækisins vikið fyrir nýrri og stærri flugvél af gerðinni Hawker 850. Hún er talin kosta í kringum þrjár milljónir punda, eða um 375 milljónir íslenskra króna. Þess má geta að gamla flugvélin bar hina viðeigandi einkennisstafi ICE - eða ís á hinu ylhýra - en það mun ekki hafa tekist að fá þá færða yfir á nýju flugvélina, sem sögð er bera einkennisstafina COD - sem eins og margir vita útleggst þorskur á íslensku. Ekki náðist í Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformann Baugs vegna þessa máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×