Sport

Knattspyrna yfirgnæfir íþróttaumfjöllun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þetta graf sýnir kynjamun íþróttafréttaumfjöllunar í dagblöðum árið 2006.
Þetta graf sýnir kynjamun íþróttafréttaumfjöllunar í dagblöðum árið 2006.

Niðurstaða rannsóknar Önnu Guðrúnar Steindórsdóttur sýnir að knattspyrna er langstærsta umfjöllunarefni íþróttahluta Fréttablaðsins og Morgunblaðsins.

Anna Guðrún útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands síðastliðið vor og notaði rannsóknina til að skrifa lokaritgerð sína.

Öll blöð Fréttablaðsins og Morgunblaðsins frá árinu 2006 voru tekin fyrir og texti allra íþróttagreina mældur í dálksentimetrum.

Greinarnar voru flokkaðar eftir íþróttagrein, kyni og innlendri eða erlendri umfjöllun.

Það er skemmst frá því að segja að umfjöllun um knattspyrnu myndar rúm 53 prósent allrar íþróttaumfjöllunar í þessum dagblöðum á síðasta ári.

Handbolti kemur næst með 27 prósent, körfubolti með tæp átta prósent og golf með rúm fimm prósent.

Aðrar íþróttir, fyrir utan frjálsíþróttir, komast ekki yfir eitt prósent.

Þetta er í litlu samræmi við iðkendatölur fyrir þetta ár eftir því sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar.

Innlendar íþróttir fá meira pláss í blöðunum, um 60 prósent og erlendar íþróttir um 40 prósent.

Þá kemur einnig fram að kynjamunur íþróttaumfjöllunar í dagblöðum er mjög mikill. Íþróttir karla skapa 87 prósenta umfjöllunarinnar og kvenna tæp tíu prósent.

Rannsóknin var kynnt á hádegisfundi ÍSÍ á föstudaginn síðastliðinn og má sjá glærur frá fyrirlestri Önnu Guðrúnar hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×