Innlent

Lækka skatta á fólk og fyrirtæki

Ríkisstjórnin hyggst lækka skatta á fólk og fyrirtæki á kjörtímabilinu. Þetta kom fram í stefnuræðu forsætisráðherra á alþingi í gærkvöldi. Persónuafslátturinn verður hækkaður og almannatryggingar endurskoðaðar til að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks. Stjórnarandstaðan sagði ræðuna flata.

Forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni að flest benti til að þensla síðustu ára væri á undanhaldi og stöðugleiki framundan. Hann sagði mikilvægt að fyrirtækin sæju sér hag í að vera með höfuðstöðvar á Íslandi og benti á harðnandi samkeppni um öflugustu fyrirtækin og bestu starfsmennina.

Afgangur ríkissjóðs skapar svigrúm til þessara skattalækkana, sagði Geir og tæpti síðan á mörgum þeirra verkefna sem ríkisstjórnin hyggst einbeita sér að, uppbyggingu í þágu barna og ungmenna, leiðréttingu á kynbundnum launamun og meiri samkeppni á lyfjamarkaði svo fátt eitt sé nefnt.

Að stefnuræðu lokinni tók Steingrímur J. Sigúfsson, formaður Vinstri grænna, til máls. Steingrímur gagnrýndi ýmislegt í ræðu Geirs, meðal annars að ekki ætti að hækka persónuafsláttinn nema um 4,8% - sem muni ekki halda í við launaþróun.

Þá steig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, í pontu og sagði stjórnina þegar á fjórum mánuðum hafa komið fjölmörgu í verk.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði hagstjórnina nú alla í höndum Seðlabankans og telur sig skynja sundurlyndi hjá ríkisstjórninni.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, gagnrýndi mótvægisaðgerðirnar harðlega, Hafró-menn séu í enn einu svartsýniskastinu og aðgerðir sjávarútvegsráðherra vegi að grunni byggðar í landinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×