Innlent

Sakar ríkisstjórnina um að sýna þjóðinni lítilsvirðingu

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður.
Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður. MYND/GVA

Hart var deilt um fyrirhugaðan flutningsstyrk Atvinnuleysistryggingarsjóðs til fólks á landsbyggðinni á Alþingi í dag. Kristinn H. Gunnarsson sagði ríkisstjórnina vera bera fé á almenning og að hún sýndi þjóðinni lítilsvirðingu með þessu. Óheppileg tímasetning á endurskoðun styrkjanna sagði ráðherra.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, gagnrýndi fyrirhugaða flutningsstyrki Atvinnuleysistryggingasjóð harðlega á Alþingi í dag. Sagði hann um aðför að landsbyggðarfólki að ræða og að styrkirnir væru einungis til þess gerðir að efla borgarríkið. Sakaði hann ríkisstjórnina um skeytingarleysi gagnvart tilfinningum fólks og sagði frá konu sem þorði ekki að fara á atvinnuleysisbætur af ótta við að henni yrði gert að flytja annað.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, benti á í ræðu sinni að styrkir af þessu tagi hefðu lengi verið í gildi. Hún sagði að ákvörðun um að taka styrkina nú til endurskoðunar hefði verið óheppileg sérstaklega þegar horft er til þess að á sama tíma hefði ríkisstjórnin verið að kynna mótvægisaðgerðir sínar. Þetta hefði sett styrkina í rangt samhengi meðal annars við uppsagnir í sjávarútvegi úti á landsbyggðinni. Sagðist ráðherra vera reiðubúin að taka styrkina úr lögum komist menn að því að þeir séu ekki réttlætanlegir.

Þá kom ennfremur fram í máli ráðherra að á síðustu tíu árum hefðu átta manns fengið svokallaða búferlastyrki. Á síðustu mánuðum hefðu engar umsóknir borist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×