Erlent

Manndrápsbjörn skotinn til bana

Óli Tynes skrifar

Bjarndýr sem talið er hafa drepið veiðimann og hund hans í Mið-Svíþjóð í gær, var skotið til bana í dag. Dýrið fannst um tvo kílómetra frá veiðikofa mannsins. Maðurinn hafði ætlað að ganga til elgveiða ásamt vinum sínum í gær. Þegar þeir komu í veiðikofann fundu þeir hundinn dauðan og illa leikið lík mannsins.

Hann hafði verið óvopnaður. Talið er að hundur hans hafi byrjað að gelta þegar bjarndýrið nálgaðist og hann farið út að gá hvað væri á seyði. Íbúar á þessu svæði hafa talsverðar áhyggjur af bjarndýrum. Þeim hafi bæði fjölgað og berjaspretta verið með minnsta móti.

Dýrin eru þá hungruð og árásargjörn. Afar sjaldgæft er að bjarndýr drepi fólk í Svíþjóð. Það hefur aðeins gerst tvisvar áður síðustu 105 árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×