Körfubolti

Óvíst um þáttöku Friðriks

Friðrik spilaði ekki með Njarðvíkingum í undanúrslitum Powerade bikarsins og er hér spariklæddur á hliðarlínunni
Friðrik spilaði ekki með Njarðvíkingum í undanúrslitum Powerade bikarsins og er hér spariklæddur á hliðarlínunni Mynd/Daniel

Fyrirliðinn Friðrik Stefánsson hefur enn ekki tekið endanlega ákvörðun um hvort hann muni leika með körfuknattleiksliði Njarðvíkur í vetur. Hann fór í hjartaþræðingu á dögunum og þjáist af hjartameini sem kallast gáttaflökt.

"Ég er ekki alveg búinn að fá grænt ljós á að spila í vetur en ég má byrja að æfa og við erum enn bara að skoða þetta. Það er dálítið í mínum höndum hvað ég geri og ég þarf bara að sjá hvað gerist þegar ég fer að æfa. Ég tók æfingu í gær og hún kom ágætlega út, en þetta er enn í rannsókn og ég vil ekki segja of mikið um þetta fyrr en ég veit meira," sagði Friðrik í samtali við Vísi í dag.

Hann segir óljóst hvort hann geti tekið þátt í leikjum Njarðvíkur á næstunni, en fyrsta umferðin í Iceland Express deildinni verður spiluð annað kvöld.

"Það er bara verið að prófa lyf við þessu núna og ég ætla ekkert að fara nánar út í það núna. Þetta verður bara að koma í ljós þegar ég fer að taka meira á því," sagði Friðrik.

"Það verður væntanlega tekin ákvörðun um framhaldið á leikdag. Það er æfing í kvöld og þetta verður allt ákveðið í samráði við þjálfarann."

Fjórir leikir eru á dagskrá IE deildarinnar annað kvöld og hefjast allir klukkan 19:15.

Njarðvík - Snæfell

KR - Fjölnir

Hamar - Tindastóll

Þór Ak - ÍR




Fleiri fréttir

Sjá meira


×