Erlent

Vill jarðsetja Lenin

Óli Tynes skrifar
Vladimir Ilyich Lenin
Vladimir Ilyich Lenin MYND/AP

Háttsettur embættismaður í Kreml vill að lík Vladimirs Lenins verði flutt úr grafhýsi á Rauða torginu og jarðsett. Lenin var smurður eftir lát sitt árið 1924 og hefur verið í grafhýsinu síðan. Mikill fjöldi manna heimsækir það árlega til þess að berja byltingarleiðtogann augum.

Vladimir Kozin hefur yfirumsjón með rekstri ýmissa ríkisstofnana, meðal annars á Rauða torginu. Hann segir að með því að flytja Lenin verði kvittað fyrir hina róstusömu fortíð Rússlands. Rússar vilji í dag lifa eðlilegu lífi, vinna og verða ríkir. Hann vill að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um flutninginn.

Boris Jeltsín, fyrsti leiðtogi landsins eftir að Sovétríkin liðu undir lok sagði margsinnis að rétt væri að flytja grafhýsið af Rauða torginu. Það mætti hinsvegar mikilli andstöðu meðal kommúnista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×