Viðskipti erlent

Slæmur fjórðungur hjá Investor AB

Stjórnarmenn í Scania, sem fjárfestingasjóður Wallenberger-fjölskyldunnar á hlut í.
Stjórnarmenn í Scania, sem fjárfestingasjóður Wallenberger-fjölskyldunnar á hlut í. Mynd/AFP

Investor AB, fjárfestingaarmur sænsku Wallenberger-fjölskyldunnar, tapaði 7,82 milljörðum sænskra króna, jafnvirði 73,4 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi samanborið við 8,92 milljarða sænskra króna hagnað á sama tíma í fyrra. Afkoma sjóðsins hefur aldrei verið verri.

Borje Ekholm, forstjóri Investor AB, segir skellinn áhrif af óróleika á fjármálamörkuðum sem hafi lokað dyrum margra fjármálafyrirtækja að fjármagni. Hann tekur þó fram að þrátt fyrir að áhrifa lausafjárkrísunnar muni gæta í nokkurn tíma, ekki síst í bókum fjármálafyrirtækja, þá séu stoðir þeirra sterkar.

Stærstu eignir Investor AB liggja víða í sænskum stórfyrirtækjaskógi, svo sem í lyfjarisanum AstraZenece, Electrolux, Scania, Saab og Ericson auk rúmlega 10 prósenta hlutar í samnorrænu kauphallarsamstæðunni OMX og er auk þess stærsti hluthafinn í Skandinaviska Enskilda Banken (SEB).

Heildareignir nema 174,6 milljörðum sænskra króna, jafnvirði tæpra 1.640 milljarða íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×