Breska verslanakeðjan Woolworths hefur riðið á vaðið fyrst verslana og varað við yfirvofandi skorti á vinsælustu leikföngunum um næstu jól. Ástæðan er sú að leikföng frá Kína eru grandskoðuð í kjölfar milljónainnköllunar fyrir nokkru og hefur það seinkað fyrir því að pantanir skili sér í hús.
Breskir fjölmiðlar segja að fleiri verslanir í Bretlandi muni fylgja í kjölfarið og tilkynna um yfirvofandi skort á leikföngum um jólin.
Baugur er stærsti hluthafinn í Woolworths.
Vefútgáfa Retail Week hefur eftir Trevor Bish Jones, forstjóra Woolworths, að hann telji breskar verslanir kappkosta að koma í veg fyrir leikfangaskort og reyni hvað þau geti til að flýta fyrir því að hörðu pakkarnir skili sér til barnanna um jólin.