Erlent

Serbar draga lappirnar í málum stríðsglæpamanna

Óli Tynes skrifar
Carla Del Ponte.
Carla Del Ponte.

Yfirsaksóknari stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag, sagði í dag að samvinna serbneskra stjórnvalda hefði skánað nokkuð á síðasta ári, en væri samt ekki nógu góð. Ætlast er til þess að serbneska ríkisstjórnin hjálpi til við að hafa upp á mönnum sem hafa verið ákærðir fyrir stríðsglæpi.

Carla Del Ponte, saksóknari, skilaði skýrslu um sambandið við Serba til utanríkisráðherra Evrópusambandsins sem nú sitja fund í Luxembourg. Del Ponte sagði að Serbar drægju enn lappirnar.

Hún gæti ekki gefið jákvæða skýrslu um samband sitt við þá fyrr en Ratko Mladic, hershöfðingi, hefði verið handtekinn og fluttur til Haag.

Mladic hefur verið sakaður um þjóðarmorð og stýrði meðal annars hersveitum sem myrtu yfir 8000 múslima frá bænum Srebrenica. Hann hefur farið huldu höfði síðan stríðinu lauk, eins og Radovan Karadsic, pólitískur leiðtogi borsníuserba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×