Erlent

Vilja ekki að Dalai Lama fái orðu

Guðjón Helgason skrifar

Bandaríkjaþing ætlar á morgun að veita Dalai Lama, trúarleiðtoga Tíbeta, heiðursorðu. Af því tilefni fundar hann með Bush Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í dag. Kínverjar eru æfareiðir Bandaríkjamönnum vegna þessa - vilja að fundinum verði aflýst og að orðan alls ekki veitt.

Á meðan þing kínverska kommúnistaflokksins stendur nú sem hæst - en það er haldið á fimm ára fresti - blandar Dalai Lama geði við áhrifamenn í Washington.

Trúarleiðtoginn aldni flúði frá Tíbet í Himalaya-fjöllum árið 1959, eftir misheppnaða uppreisn gegn kínverskum yfirráðum, og meira en hundrað og tuttugu þúsund flóttamenn fylgdu honum til Indlands. Kínverjar segja hann pólitískan útlaga sem vilji kljúfa Tíbet frá Kína.

Dalai Lama fékk friaðrverðlaun Nóbels árið 1989 og á morgun fær hann gullorða bandaríska þingsins, en það er æðsta borgaralega viðurkenning landsins.

Kínverjar eru sármóðgaðir og segja þarna verið að hlutast til um innanríkismál Kína. Ráðamenn í Peking vilja að orðuveitingin fari ekki fram og að fundi trúarleiðtogans með George Bush, Bandaríkjaforseta, í Hvíta húisinu í dag verði þegar aflýst. Bandaríkjaforseti ætlar að vera viðstaddur orðuveitinguna og verður það þá í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Bandaríkjanna kemur fram opinberlega með Dalai Lama.

Dalai Lama virðist auðfúsugestur nærri hvar sem er í heiminum og í hvert sinn sem hann stígur fæti niðru utan Tíbet rísa Kínverjar upp og fordæma gestrisni í hans garð. Í síðasta mánuði átti hann fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og mótmæltu ráðamenn í Peking því harðlega. Fyrr á þessu ári fékk hann heiðurborgararétt í Kanada og því var einnig afar illa tekið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×