Viðskipti erlent

Indverska hlutabréfavísitalan féll um níu prósent

Indverskur verðbréfamiðlari, sem horfði upp á gengi hlutabréfa falla hratt í indversku kauphöllinni í dag.
Indverskur verðbréfamiðlari, sem horfði upp á gengi hlutabréfa falla hratt í indversku kauphöllinni í dag. Mynd/AFP

Viðskipti voru stöðvuð tímabundið í kauphöllinni á Indlandi í dag þegar gengi hlutabréfa féll skyndilega en Sensex-hlutabréfavísitalan féll um níu prósent á einum degi. Fallið kom í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda að setja hömlur á hlutabréfakaup erlendra fjárfesta í því augnamiði að kæla hlutabréfamarkaðinn.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir fjármálaráðherra landsins, að ekkert sé að óttast og bætir við að með aðgerðunum sé horft til þess að draga úr miklum sveiflum á indverskum hlutabréfamarkaði.

Indverskur hlutabréfamarkaður hefur verið á mikilli siglingu þrátt fyrir óróleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og slegið hvert metið á fætur öðru.

Sensex-hlutabréfavísitalan stóð í 19.174,45 stigum í gær og hafði aldrei verið hærri en féll niður í 17.544,15 stig. Markaðurinn jafnaði sig lítillega eftir því sem á leið daginn og endaði vísitalan í 17.7899,69 stigum, sem var engu að síður sex prósenta lækkun á einum degi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×