Erlent

Íransforseta boðið til Rússlands

Guðjón Helgason skrifar

Pútín Rússlandsforseti hefur boðið Ahmadinejad Íransforseta í opinbera heimsókn til Moskvu til að ræða samskipti ríkjanna og kjarnorkudeiluna við Írana. Íransforseti hefur þekkst boðið.

Sólahrings heimsókn Pútíns Rússlandsforseta til Írans lauk í gærkvöldi. Þangað fór hann til að sitja leiðtogafund ríkja við Kaspía haf. Þar sat hann fundi með Ahmadinejad Íransforseta og Khamenei, erkiklerk. Þetta var fyrsta heimsókn Moskvuleiðtoga til Teheran frá því Jósef Stalín kom þangað 1943.

Pútín lét sögusagnir um mögulegt morðtilræði sem vind um eyrun þjóta og fór til Írans eins og áformað var. Vonast er til að persónulegar viðræður hans og Ahmadinejads verði til að draga úr spennunni í kjarnorkudeilunni við Írana.

Pútín hét því að smíði Bushehr kjarnorkuversins yrði lokið samkvæmt áætlun - en Rússar aðstoða við smíði þess. Kjarnorkuverið er þyrnir í augum vesturveldanna sem saka Írana um að ætla að smíða kjarnorkuvopn þó ráðamenn í Teheran neiti því staðfastlega - kjarnorku eigi að nota í friðsamlegum tilgangi. Bandaríkjamenn hafa hvatt Rússa til að hætta við smíði kjarnorkuversins.

Áður en Pútín fór frá Íran bauð hann Ahmadinejad í opinbera heimsókn til Moskvu til að ræða kjarnorkudeiluna. Íranforseti þáði boðið með þökkum. Eftir er að ákveða hvenær af þeim fundi verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×