Erlent

Ofurherskip til skrauts í norskum höfnum

Óli Tynes skrifar
Norski flotinn á í vandræðum með að halda í sjóliða sína.
Norski flotinn á í vandræðum með að halda í sjóliða sína.

Norska ríkisendurskoðunin segir að norski flotinn hafi ekki aðstöðu til þess að þjálfa mannskap á nýjar ofurfreigátur sem pantaðar hafa verið frá Spáni. Alls voru pantaðar fimm freigátur sem kosta yfir 250 milljarða íslenskra króna. Þrjár hafa þegar verið afhentar.

Um borð í þessum skipum eru fullkomnustu og flóknustu vopna- og tölvukerfi til til eru. Þjálfun áhafna er því mikið verk og til hennar þaft margvíslegan tækjabúnað. Auk þess að skorta þennan búnað á flotinn í erfiðleikum með að halda í áhafnir sínar þegar herþjónustu þeirra lýkur. Norska blaðið Aftenposten segir að miðað við gagnrýni ríkisendurskoðunar geti því farið svo að ofurherskipin muni liggja upp á punt í höfnum landsins.

Ekki vill varnarmálaráðuneytið skrifa upp á þetta. Í svarbréfi til ríkisendurskoðunar segir að flotinn hafi þann möguleika að senda sjóliða sína í þjálfun til annarra landa. Hinsvegar er viðurkennt að atgervisflóttinn sé vissulega vandamál, sem taka verði á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×