Kimi Raikkönen var fljótastur á fyrstu æfingu fyrir lokakeppni ársins í Formúlunni sem fer fram í Brasilíu um helgina.
Mikil bleyta var á brautinni í dag og af þeim sökum fóru flestir bílar ekki af stað fyrr en á síðasta hálftímanum.
Raikkönen var hálfri sekúndu á undan liðsfélaga sínum, Felipe Massa. Heikki Kovalainen á Renault var þriðji og Nico Rosberg á Williams fjórði.
Lewis Hamilton náði ekki nema fimmta besta tímanum í dag en Fernando Alonso ákvað að vera ekkert að hætta sér út á brautina í þessum aðstæðum.
Mikil spenna ríkir fyrir lokakeppnina en Raikkönen, Hamilton og Alonso eiga allir enn möguleika á titlinum. Það er Bretinn Hamilton sem stendur best að vígi í þeirri baráttu.