Erlent

Verkfall stöðvar ekki ferð þeirra

Guðjón Helgason skrifar

Breskir rúgbí áhugamenn láta verkfall starfsmanna almenningssamgöngufyrirtækja í Frakklandi ekki stöðva sig og flykkjast til Parísar. Þar keppa Englendingar til úrslita á heimsmeistaramótinu í rúgbí á morgun.

Þær eru mættir til Parísar - ensku rúgbíbullurnar - þúsundum saman - með eða án miða á úrslitaleikinn á morgun og vilja ólmar fylgja sínu liði. Englendingar eru heimsmeistarar og gætu skráð sig á spjöld sögunnar sem fyrsta landsliðið sem ver titilinn leggi þeir Suður-Afríkumenn á morgun. Verkfall starfsmanna almenningssamgöngufyrirtækja virðast ekki hafa fælt bullurnar frá því að leggja land undir fót. Þessir gestir bæta ekki á ástandið en erfitt var fyrir að koma sér milli staða eða í og úr vinnu.

Verkfallið skall á í gær. Það átti í fyrstu aðeins að standa í sólahring. Tvö af átta verkalýðsfélögum samþykktu að framlengja verkfallið. Parísarbúar þurftu því margir að nota tvo jafnfljóta eða reiðhjólið sitt til að komast í og úr vinnu. Margir eru æfir - telja að verkfallið bitni á þeim sem síst skyldi. Aðrir skilja kröfur starfsmanna almenningssamgöngufyrirtækja.

Með verkfallinu er verið að mótmæla eftirlaunafrumvarpi Sarkozys, Frakklandsforseta, þar sem lagt er til að eftirlaunaaldur fimm hundruð þúsund starfsmanna verði hækkaður um tvö og hálft ár. Fulltrúar verkalýðsfélaganna átta funda eftir helgi til að ákveða frekari aðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×