Erlent

Óttast stjórnarskipti

Guðjón Helgason skrifar

Ráðamenn í Washington fylgjast uggandi með pólsku þingkosningunum á morgun. Verði sitjandi stjórn felld gætu áætlanir um eldflaugavarnarkefi Bandaríkjamanna í Austur-Evrópu verið í uppnámi.

Nýjustu kannanir benda til þess að stjórn eftir kosningarnar verði Jaroslaw Kacynski ekki lengur forsætisráðherra. Kaczynski er leiðtogi hins íhaldssama Laga- og réttlætisflokks og tvíburabróðir Lech Kaczynskis forseta Póllands. Við valdataumunum taki annar hægrimaður, Donald Tusk, leiðtogi Borgaralegs vettvangs og mótframbjóðandi Lechs í forsetakosningunum 2005.

Munurinn mælist nú á bilinu 4 til 17%. Tusk hefur lofað umbótum í efnahagsmálum og heimkvaðningu hermanna frá Írak. Grzegor Schetyna, framkvæmdastjóri Borgaralegs vettvangs, flokks Tusks, segir Pólverja trygga bandamenn Bandaríkjamanna en þeir telji hins vegar að hlutverki þeirra í Írak ætti að vera lokið og verkefnum sem þeim var falið einnig.

Bandaríkjamenn fylgjast því vandlega með kosningabaráttunni - ekki síst vegna eldflaugavarnarkerfisins sem þeir ætla að byggja í Póllandi og Tékklandi. Það kerfi er þyrnir í augum Rússa. Flokkur Tusks vill fá Atlantshafsbandalagið inn í málið. Schetyna segir þetta mál sem þurfi að taka til umræðu, líka í Póllandi, svo hægt verði að ákvarða með vissu hvað Pólverjar vilji. Hann telur vilja fyrir því að eldflaugavarnarkerfið verði hluti af varnarkerfi NATO.

Áhuginn fyrir kosningunum verður ekki síðri hér en um sex þúsund Pólverjar búa á Íslandi. Tæplega 500 þeirra ætla að kjósa og hafa skráð sig til þess. Hægt verður að kjósa í Alþjóðahúsinu í Reykjavík frá klukkan 6 í fyrramálið til klukkan 20 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×