Erlent

Orð Díönu eftir slysið: „Guð minn góður“

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Björgunarmenn að störfum við Mercedes Benz bifreiðina í göngunum eftir slysið.
Björgunarmenn að störfum við Mercedes Benz bifreiðina í göngunum eftir slysið. MYND/AFP

Slökkviliðsmaður sem kom á slysstað í Alma göngunum í París strax eftir slysið sem tók líf Díönu prinsessu og Dody Fayed ástmanns hennar bar vitni fyrir dómi í dag. Hann sagði prinsessuna hafa endurtekið í sífellu orðin „Oh my God".

Damian Dalby var í París ásamt bróður sínum og hópi vina þegar þeir komu að göngunum. Hann bar vitni í réttarrannsókninni í London í gegnum myndsendingu um gervihnött frá París.

Hann sagði kviðdómendum hvernig hann hefði flýtt sér að flaki Mercedes Benz bifreiðarinnar þar sem ljósmyndarar höfðu safnast saman. Reykur hefði stigið upp frá bílnum og hann vildi aftengja rafgeyminn. Það hafi hann hins vegar ekki getað.

Aðspurður að því hvort Díana hafi reynt að tala sagði hann; „Já hún sagði „oh my God, oh my God."" Dalby var einnig spurður hvort það væri rétt að þá hefði hann ekki kunnað ensku. Því játaði hann og sagði að það væri staðreyndin enn þann dag í dag.

Á slysstað bað Dalby ferðamann á staðnum að segja lífverði Díönu að hreyfa sig ekki af því að sjúkralið væri á leiðinni. Ferðamaðurinn hefði sagt honum að hann hefði verið að elta bíl prinsessunnar sem hefði verið á miklum hraða.

Dalby sagðist ennfremur hafa munað eftir ljósmyndara sem hefði kallað eftir að hann tók mynd af Díönu í bílnum; „Hún er á lífi." Síðan hafi hann reynt að ýta hinum ljósmyndurunum frá. Svo hafi virst sem hann hafi ekki viljað að hinir ljósmyndararnir tækju myndir af prinsessunni í þessu ástandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×