Innlent

Vantar erlenda banka á Íslandi

Guðjón Helgason skrifar

Einkavæðing bankanna hefur mistekist og skilað mun meiri vaxtamun hér en annar staðar í heiminum. Þetta segir Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, og telur að tilkoma erlendra banka á Íslandi myndi laga stöðuna.

Þorvaldur segir tilgang einkavæðingar að viðskiptavinir njóti góðs af aukinni hagkvæmni - útlánsvextir lækki og innlánsvextir hækki. Alþjóðlegar tölur sýni hins vegar að vaxtamunur á Íslandi hafi aukist. Margir bankar hafi verið einkavæddir víða um heim og þar hafi þess verið gætt að samkeppni yrði meiri til að tryggja hag viðskiptavina. Erlendum bönkum hafi verið boðið í baráttuna - ekki síst í Austur-Evrópu.

Þorvaldur segir þess ekki hafa verið gætt hér. Einkavæðingin hafi ekki verið vel útfærð og mistekist að því er varði að bakanir hafi vissulega verið færðir úr eigu ríkis í einkaeign - eins og hafi verið nauðsynlegt - en þess ekki gætt um leið að tryggja harða samkeppni á bankamarkaði. Bankarnir þurfi að vísu að keppa hver við annan heima, en þeir þurfi ekki að keppa við erlenda banka á Íslandi. Þess vegna komist þeir upp með að taka svo háa vexti í útlánum sem þeir geri.

Þorvaldur segir nauðsynlegt að helypa útlendum bönkum í baráttuna hér. Maður sem gangi niður götuna í Björgvin í Noregi sjái skilti frá Glitni - íslenskur banki að keppa við norska banka um hylli norskra viðskiptavina. Skilti Kaupþings hangi í Stokkhólmi og öðrum sænskum borgum og þannig eigi það að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×