Erlent

Fórnarlamb krúnukúgara sonur Margrétar prinsessu

Óli Tynes skrifar
David Linley,  markgreifi.
David Linley, markgreifi.

David Linley markgreifi, hefur verið nefndur sem sá meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar sem maður af íslenskum ættum er sakaður um að reyna að kúga fé út úr. Breskum fjölmiðlum hefur verið bannað að nafngreina hann, en nafn hans hefur skotið upp kollinum í fjölmiðlum vestanhafs.

David Linley er sonur Margrétar prinsessu systur Elísabetar drottningar. Faðir hans er ljósmyndarinn Snowdon lávarður. Linley sem er 45 ára gamall er sá meðlimur konungsfjölskyldunnar sem hefur átt mestri velgengni að fagna í viðskiptalífinu. Hann er stjórnarformaður Christies uppboðshússins og er sjálfur frægur og vel metinn hönnuður.

Meðal viðskiptavina hans eru Elton John, Oprah Winfrey og Mick Jagger. Hann hefur hannað húsgögn fyrir Metropolitan listasafnið í New York og lystisnekkjur fyrir arabiska fursta.

Markgreifinn er þekktur fyrir að verja einkalíf sitt af hörku. Árið 1990 braut hann þá hefð konungsfjölskyldunnar að standa ekki í málaferlum við fjölmiðla. Hann fór í mál við dagblað sem hélt því fram að hann hefði verið með drykkjulæti á ölstofu. Linley vann málið og fékk 30 þúsund sterlingspund í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×