Erlent

Fæst barnanna í Chad munaðarleysingjar

Óli Tynes skrifar
Idriss Deby, forseti Chad, heimsækir börnin.
Idriss Deby, forseti Chad, heimsækir börnin. MYND/AP

Fæst barnanna sem frönsk samtök ætluðu að fljúga með frá Afríkuríkinu Chad eru munaðarleysingjar að sögn talsmanns Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

"Þetta voru ekki munaðarleysingjar sem sátu einir úti í eyðimörkinni í Chad. Börnin bjuggu hjá fjölskyldum sínum, " sagði Annette Rehrl í samtali við Reuters fréttastofuna.

Níu Frakkar hafa verið handteknir vegna málsins og tilheyra flestir þeirra frönsku samtökunum Örkin hennar Zoe. Áhöfn flugvélarinnar sem átti að flytja börnin var einnig handtekinn. Flugvélin er í eigu Loftleiðir Icelandic en er í leigu hjá spænsku flugfélagi sem lagði til áhöfnina.

Börnin eru 103 talsins. Tuttugu og ein telpa og 82 drengir. Þau eru á aldrinum eins til tíu ára. Nokkur þeirra hafa sagt blaðamönnum að foreldrar þeirra séu ennþá á lífi. Þau hafi verið lokkuð frá heimilum sínum með loforðum um sælgæti og kex.

Hin handteknu hafa verið kærð fyrir mannrán og svik og eiga yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangavist í þrælkunarbúðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×