Erlent

Churchill hótaði afsögn vegna vetnissprengjunnar

Óli Tynes skrifar
Sir Winston Churchill.
Sir Winston Churchill.
Winston Churchill hótaði að segja af sér sem forsætisráðherra, árið 1954 ef samráðherrar hans féllust ekki á að Bretar skiptu ekki kjarnorkusprengjum sínum út fyrir hinar margfallt öflugri vetnissprengjur. Málið fór af stað á ríkisstjórnarfundi í júlí. Hann hófst með því að Churchill tilkynnti að hann hefði ákveðið að láta smíða vetnissprengjur.

Harold MacMillan sem þá var húsnæðismálaráðherra sagði að þeim væri brugðið við að vera tilkynnt þetta svona umbúðalaust og án nokkurs samráðs. Fleiri ráðherrar meðal annars Salisbury lávarður tóku í sama streng.

Salisbury benti á að þótt Churchill hefði stjórnarskrárlegan rétt til þess að taka þessa ákvörðun einn þá hefðu ráðherrar rétt til þess að segja af sér ef þeir væru ósammála.

Málið var aftur tekið fyrir tveim vikum síðar og Churchill hóf þá vörn sína á sókn. Hann sagðist ekki telja að gjörð hans væri óviðeigandi. Ef ríkisstjórnin væri þeirrar skoðunar væri ljóst að hann nyti ekki trausts hennar lengur og hann yrði að segja af sér.

Enginn ráðherranna lagði í að sjá hönd hans í þessu pókerspili og Churchill hafði sitt fram.

Þessar upplýsingar komu fram í minnisblöðum ritara ríkisstjórnarinnar, sem nýlega var létt leynd af. Í þessum minnisblöðum kemur einnig fram að Churchill var ákveðinn í að standa utan við Víetnamstríðið, sem þá vofði yfir.

"Við megum ekki missa áhrif okkar í Bandaríkjunum, en við ættum ekki að blanda okkur í þetta," sagði ráðherrann sem þá var 79 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×