Erlent

Evrópa verður að herða sig gegn hryðjuverkum

Óli Tynes skrifar
Franco Frattini, dóms- og öryggismálastjóri ESB.
Franco Frattini, dóms- og öryggismálastjóri ESB.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill að Evrópuríki herði baráttuna gegn hryðjuverkum með því að ráðast á vefsíður öfgasamtaka. Einnig að byrjað verði að afla upplýsinga um flugfarþega, eins og gert er í Bandaríkjunum.

Dóms og öryggismálastjóri sambandsins Franco Frattini sagði á fundi með fréttamönnum í dag að hryðjuverkamenn reyndu að gera árásir hvar sem er og hvenær sem er og með þeim hætti sem vekti mesta athygli. "Við getum ekki leitt þetta hjá okkur," sagði Frattini.

Hann sagði einnig að stór hluti af árásum og áætlunum hryðjuverkamanna væru unnar í tengslum við öfgasamtök sem notuðu múhameðstrú til þess að fremja glæpi sína. Frattini bætti því við að það væru mikil mistök að halda að einhver trúarbrögð styddu hryðjuverk.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill að aðildarríkin 27 safni 19 liða upplýsingum um flugfarþega. Meðal annars um símanúmer, tölvupóstfang, hvernig greitt er fyrir farið og hver söluaðilinn er.

Franco Frattini hvatti einnig þjóðir Evrópu til þess að taka hart á öllum opinberum hvatningum til hryðjuverka og einnig á liðssmölun og upplýsingum um þjálfun. Ekki síst á netinu, sem sé orðið öflugt vopn ódæðismanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×