Hagnaður japanska bílaframleiðandans Toyota nam 450,9 milljörðum jena, jafnvirði rúmra 233 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi, sem er annar fjórðungur félagsins. Til samanburðar nam hagnaðurinn 405,7 milljörðum jena á sama tíma í fyrra og nemur aukningin því 11 prósentum á milli ára.
Þá nam sala á bílum undir merkjum fyrirtækisins tæpum 6,5 milljörðum jena, sem sömuleiðis er 11 prósenta aukning á milli ára.
Mitsuo Kinoshita, aðstoðarforstjóri Toyota, segir í samtali við fréttastofu Associated Press í dag, að salan hafi aukist í öllum heimsálfum samhliða verðhækkunum á eldsneyti en bílaeigendur hafi af þeim sökum leitað í auknum mæli eftir sparneytnum og umhverfisvænum ökutækjum. Sala á bílum Toyota, sem fyrr á árinu tók fram úr General Motors sem umsvifamesti bílaframleiðandi í heimi, stóð hins vegar í stað í heimalandinu á sama tíma.
Stjórnendur fyrirtækisins eru mjög bjartsýnir um framtíðarhorfur félagsins og gera ráð fyrir því í nýrri afkomuspá að hagnaðurinn muni nema 1.700 milljörðum jena samanborið við 1,65 milljarða líkt og fyrri spá hljóðaði upp á.