Erlent

Múslimaklerkur rekinn frá Noregi

Óli Tynes skrifar
Krekar (th) við úrskurð hæstaréttar í dag.
Krekar (th) við úrskurð hæstaréttar í dag.
Hæstiréttur Noregs staðfesti í dag að hinum herskáa múslimaklerki Mullah Krekar skuli vísað úr landi. Krekar er íraskur kúrdi sem fékk hæli í Noregi árið 1991. Hann hefur síðan margoft farið aftur til Íraks til þess að stofna samtökin Ansar al-Islam. Sameinuðu þjóðirnar skilgreina þau sem hryðjuverkasamtök.

Norsk stjórnvöld vísuðu Krekar úr landi árið 2003. Sú brottvísun hefur verið staðfest á ýmsum dómsstigum og nú fyrir hæstarétti. Krekar verður þó ekki strax sendur úr landi þar sem Noregur sendir ekki fólk til landa þar sem það getur átt dauðadóm yfir höfði sér.

Eiginkona Krekars og fjögur börn eru nú norskir ríkisborgarar. Hæstiréttur sagði hinsvegar að öryggi landsins vægi þyngra en fjölskylduaðstæður klerksins.

Norskir fjölmiðlar hafa upplýst að hægt sé að tengja Krekar við vefsíður sem styðji Al-Kæda. Ein þeirra er á nafni konu hans. Í fyrstu sagði Krekar að hann vissi ekkert um þá síðu. Hann viðurkenndi síðar að hann hefði sjálfur lagt þar inn efni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×