Erlent

Þrír nazistar fengu lífstíðar fangelsi

Óli Tynes skrifar

Hæstiréttur Ítalíu staðfesti í dag lífstíðar fangelsisdóm yfir þrem foringjum í SS sveitum nazista sem myrtu 560 íbúa þorpsins Sant 'Anna di Stazzema í Toscana héraði.

Það gerðist 12 ágúst árið 1944. Þjóðverja voru þá að hörfa undan innrásarher Bandamanna, að Gotnesku línunni svokölluðu.

Það var lína sem var dregin þvert yfir Ítalíu. Þar ætluðu Þjóðverjar að stöðva sókn Bandamanna úr suðri. Þjóðverjar myrtu fjölda óbreyttra borgara á undanhaldi sínu, en hvergi var blóðbaðið meira en í Sant 'Anna.

Þar var íbúunum smalað út á götur og þeir brytjaðir niður með vélbyssum.

Langflest voru konur og börn, það yngsta 20 daga gamalt. Dómur hæstaréttar er að mestu táknrænn. SS foringjarnir eru á tíræðisaldri og ekki verður leitað eftir að fá þá framselda frá Þýskalandi, þar sem þeir eru taldir of gamlir til að setja í fangelsi á Ítalíu.

Eftirlifandi íbúum þorpsins finnst þó réttlætinu hafa verið fullnægt. Mauro Pieri var 12 ára gamall þegar ódæðið var framið.

Meðal hinna myrtu voru móðir hans tveir bræður. "Þetta var 63 ára bið. Ég gæti ekki verið hamingjusamari," sagði gamli maðurinn með tárin í augunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×