Enski boltinn

Skrautlegur eigandi Newcastle

Mike Ashley í treyjunni góðu
Mike Ashley í treyjunni góðu NordicPhotos/GettyImages

Eigandi Newcastle ætlar að mæta á grannaslag liðsins gegn Sunderland á útivelli á morgun eins og flesta leiki liðsins. Hann verður þó ekki í heiðursstúkunni eins og venja er með eigendur, heldur verður hann í stúkunni með stuðningsmönnum Newcastle.

Auðkýfingurinn Mike Ashley eignaðist félagið endanlega í sumar og er umtalaður fyrir þær sakir að þrátt fyrir gríðarlega ásókn fjölmiðla er sama og ekkert vitað um hagi hans.

Hann er þó þekktur fyrir að horfa alltaf á leiki Newcastle klæddur í treyju númer 17 - treyju Alan Smith. Ashley er sagður hrifinn af leikstíl og baráttu Smith á vellinum og vill að liðið taki sér hann til fyrirmyndar.

Þegar það spurðist svo út að Ashley ætlaði að mæta á grannaslaginn í treyjunni eins og venja er, lýstu Sunderland menn yfir áhyggjum sínum af því að þetta gæti valdið fjaðrafoki meðal stuðningsmanna heimaliðsins.

Eigandinn var fljótur að leysa þetta vandamál og situr á morgun fyrir aftan annað markið á meðal stuðningsmanna Newcastle sem fylgja liðinu í útileikinn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eigandinn dularfulli veldur fjaðrafoki með klæðaburði sínum, en fyrr á þessu ári var honum meinaður aðgangur að næturklúbbi í Newcastle af því hann var klæddur treyju liðsins.

Einn af yfirmönnum staðarins þekkti hann og hleypti honum undir eins inn. Ashley þakkaði fyrir sig með því að bjóða öllum sem voru inni á klúbbnum í glas og "tippsaði" starfsfólkið með feitri upphæð. Staðurinn hefur síðan breytt reglum um klæðaburð og nú er öllum frjálst að mæta í fótboltatreyjum á klúbbinn - ef þeir eru eigendur viðkomandi félags.

Ashley er einn efnaðasti maður Englands og keypti Newcastle fyrir um 134 milljónir punda, eða 17 milljarða króna. Hann varð ríkur á því að selja íþróttavörur - ekki ósvipaðar og Alan Smith-treyjuna góðu sem hann klæðist á leikjum Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×