Erlent

Þetta var ekki fyndið

Óli Tynes skrifar
Fredrik Reinfeldt átti ekki von á vatnsbyssu í hljóðnemanum.
Fredrik Reinfeldt átti ekki von á vatnsbyssu í hljóðnemanum.

Sænsk sjónvarpskona hefur verið dæmd í 200 þúsund króna sekt fyrir að sprauta vatni framan í Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra, og börn hans.

Vatnsárásin átti sér stað við frumsýningu á kvikmynd þar sem forsætisráðherrann var viðstaddur ásamt fjölskyldu sinni.

Sjónvarpskonan Hanna Wilenius var að taka efni fyrir gamanþátt, en mætti á staðinn með hljóðnema merkta sænska sjónvarpinu. Reinfeldt hélt því að hún væri fréttamaður.

Inni í hljóðnemanum var hinsvegar vatnsbyssa og úr henni sprautaði Wilenius framan í forsætisráðherrann. Honum brá mjög, sem og börnum hans sem einnig fengu vatnsgusur yfir sig.

Fyrir rétti sagði Wilenius að það hefði aldrei verið ætlunin að neinni tæki þetta illa upp. Ekki hefði átt að móðga neinn. Þetta hefði bara verið til gamans gert.

Sænsku öryggislögreglunni fannst þetta ekkert fyndið og kærði sjónvarpskonuna. Dómstólnum fannst þetta heldur ekkert fyndið og dæmdi hana í 200 þúsund króna sekt.

Þess má geta að sjónvarpsstöðin hætti við að sýna þetta atriði í dagskrá sinni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×