Erlent

Finna rækjur til ?

Óli Tynes skrifar
Sadisti ?
Sadisti ?

Írskur líffræðingur heldur því fram að rækjur og önnur skeldýr finni til sársauka ef þau eru soðin lifandi. Flestir vísindamenn telja að hryggleysingjar hafi of lítinn heila til þess að geta skynjað sársauka. Kippir þeirra séu aðeins ósjálfráðar hreyfingar.

Robert Elwood prófessor við Queens háskólann í Belfast gerði tilraun til þess að sanna hið gagnstæða. Hann tók 144 rækjur og dýfði fálmurum þeirra í etansýru sem er aðal uppistaðan í ediki.

Rækjurnar brugðust við með því að nudda fálmurum sínum saman í allt að fimm mínútur. Þetta telur Elwood að sýni að þær finni til sársauka.

Lynne Sneddon við Háskólann í Liverpool er ekki sannfærð. "Það er alveg eins hægt að segja að rækjurnar séu bara að hreinsa fálmara sína, eins og að þær séu að sýna viðbrögð við sársauka."

Richard Chapman við Háskólann í Utah er sammála henni. "Flest dýr hafa skynjara sem bregðast við áreiti. Jafnvel einfrumungar geta fundið fyrir efnablöndu og brugðist við. Það er ekki það sama og að þau finni sársauka."

Norðmenn gerðu rannsóknir á þessu sviði árið 2005 og komust að þeirri niðurstöðu að dýr eins og humrar og krabbar fyndu ekki til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×