Enski boltinn

Enska bikarkeppnin komin af stað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dennis Wise, stjóri Leeds.
Dennis Wise, stjóri Leeds. Nordic Photos / Getty Images

Fyrsta umferð ensku bikarkeppninnar hófst í kvöld með leik Hereford United og Leeds United. Liðin skildu jöfn, 0-0, og þurfa því að mætast á nýjan leik.

Úrslitin koma á óvart þar sem Hereford leikur í ensku D-deildinni og Leeds í C-deildinni. Leeds hefur unnið tólf leiki af fimmtán í deildinni til þessa og er í sjöunda sæti þrátt fyrir að hafa byrjað deildina í haust með fimmtán stig í mínus.

Hereford hefur þó einnig gengið vel í sinni deild og er í öðru sæti með 28 stig eftir fimmtán leiki.

Alls taka 729 lið þátt í keppninni í ár en eftir sex umferðir í for- og undankeppni standa nú 32 utandeildarlið eftir auk hinna 92 liða sem leika í deildakeppninni.

Liðin í C- og D-deildunum, samtals 48 talsins, taka þátt í fyrstu umferðinni sem fer fram nú um helgina.

Liðin í efstu tveimur deildunum koma til leiks í þriðju umferð og er oft að miklu að keppa fyrir neðri- og jafnvel utandeildarliðin að komast þangað og eiga möguleikan á því að mæta stórlöxunum úr úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×