Enski boltinn

Fulham hékk í Liverpool í 80 mínútur

Torres og Gerrard voru hetjur Liverpool í lokin í kvöld
Torres og Gerrard voru hetjur Liverpool í lokin í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez tefldi fram óbreyttu liði í fyrsta skipti í meira en ár í kvöld þegar lið hans lagði Fulham 2-0 í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Varamaðurinn Fernando Torres braut ísinn á 81. mínútu eftir frábært einstaklingsframtak og Steven Gerrard innsiglaði sigurinn með marki úr loðinni vítaspyrnu sem dæmd var í lokin.

Peter Crouch átti skot í þverslá fyrir Liverpool í fyrri hálfleik, en mótstaðan lærisveina Lawrie Sanchez í kvöld var allt önnur en sú sem var í boði hjá slöku liði Besiktas í vikunni.

Finnski markvörðurinn Antti Niemi var frábær í marki gestanna og varði hvað eftir annað skot Liverpool. Liðið hefði gert fjögur jafntefli á heimavelli sínum í deildinni fyrir leikinn í dag og í 80 mínútur leit út fyrir að það sama yrði upp á teningnum hjá þeim rauðu í kvöld.

Þetta var hinsvegar ekki í fyrsta skipti sem Fulham hrynur í síðari hálfleik í deildinni og var þetta í 10 skiptið sem liðið fær á sig mark á síðustu 10 mínútunum.

Sigur Liverpool þýðir að liðið er enn taplaust á leiktíðinni eftir 12 leiki og er nú í fjórða sæti ásamt Chelsea- en með ögn betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×