Toyota umboðið í Noregi er aftur byrjað að selja Toyota Hilux pallbíla. Tilkynnt var um sölustopp í gær eftir að bíllinn hafði næstum oltið í elgsprufu sænska bílablaðsins Teknikens Värld.
Elgsprufan felst í því að bílnum er snarbreygt tvisvar sinnum í sikk sakk á 60 kílómetra hraða, eins og gæti gerst ef elgur stykki skyndilega út á þjóðveginn.
Ástæðan fyrir því að byrjað er að selja bílinn aftur er sú að undir tilraunabíl Teknikens Värld voru extra breið dekk.
Þessi útgáfa af bílnum er ekki seld í Noregi. Í tilkynningu frá Toyota segir að venjulega útgáfan, sem seld er í Noregi, standist elgsprufuna.
Norska blaðið Aftenposten segir að Toyota Hilux sé einn af fáum nýjum bílum sem ekki sé með rafeindastýrðan jafnvægisbúnað (ESP).