Erlent

Vitni segir rafbyssu hafa verið óþarfa

Guðjón Helgason skrifar
MYND/AP

Maður sem tók myndir af því þegar kanadíska lögreglan notaði rafbyssur á annan mann,með þeim afleiðingum að hann lést, segir ekki hafa verið þörf á svo harkalegum viðbrögðum. Lögreglan á Íslandi íhugar að taka slíkar byssur í notkun.

Robert Dziekanski beið eftir móður sinni á flugvellinum í Vancouver. Hann var fertugur, kunni ekki stakt orð í ensku og nýkominn úr fyrstu flugferð sinni. Þau fórust á mis og hann missti stjórn á skapi sínu af hræðslu. Lögregla notaði rafbyssu til að róa hann og yfirbuga. Dziekanski lést í átökunum. Krufning hefur ekki leitt í ljós hvað olli dauða hans. Atvikið var fest á filmu en lögregla birti upptökuna fyrst í gær að ósk móður Dziekanskis.

Paul Pritchard, sem tók atvikið upp á myndband, segir hann hafa myndað það í fyrstu sem skemmtiatriði. En þegar lögregla hafi notað rafbyssuna hafi Dziekanski gefið frá sér hryllilegt óp sem sé fast í huga hans.

Pritchard segist aldrei hafa skynað það að hann væri líklegur til vandræða eða ógn. Hann hafi ekki haft sig þannig í frammi. Kona á vettvangi hafi meira að segja gengið beint að honum og reynt að róa hann. Pritchard segir hegðun Dziekanskis vissulega hafa verið órökrétta en hans mat var að maðurinn hafi verið hræddur.

Pritchard segir athyglisvert að lögregla hafi tekið myndbandið af sér eftir atburðinn og ekki viljað láta hann fá það aftur. Það veki spurningar. Talsmaður lögreglu segir málið í rannsókn. Myndbandið sé aðeins eitt sönnunargagn af mörgum.

Kanadískir miðlar segja átján manns hafa látist í Kanada frá 2003 eftir að rafbyssa hafi verið notuð á viðkomandi.

Í yfirlýsingu frá framleiðendum rafbyssanna - Taser International - er dauði Dziekanskis harmaður. Rannsókn hafi sýtn að rafbyssa hafi ekki valið dauða verið völd að dauða í tilvikunum átján - og myndbandið bendi til að það sama eigi við nú. Lögregla hér á landi íhuga nú að taka rafbyssur sem þessar í notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×