Handbolti

Afar óvænt tap hjá Stjörnunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
FH vann afar óvæntan sigur á Stjörnunni í dag.
FH vann afar óvæntan sigur á Stjörnunni í dag.

Afar óvænt úrslit urðu í N1-deild kvenna í dag er Íslandsmeistarar Stjörnunnar töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu er liðið lá fyrir FH, 26-25.

Sigur hefði gefið Stjörnunni þriggja stiga forystu en fyrir vikið er spennan mikil á toppnum og Fram getur komist á toppinn með sigri á Haukum á morgun.

FH byrjaði af miklum krafti og komst í 6-1 forystu en staðan var 16-11 í hálfleik, gestunum úr Hafnarfirði í vil.

Stjarnan hristi af sér slenið í síðari hálfleik og jafnaði leikinn í stöðunni 16-16. Jafnt var á öllum tölum þar til Stjarnan komst yfir þegar skammt var til leiksloka. En FH-ingar skouðu síðustu tvö mörk leiksins og tryggðu sér þar með sætan sigur.

„Við erum núna búnar að spila þrjá leiki á viku og vorum greinilega ekki með hugan við verkefnið," sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn við Vísi. „Það var engu líkara en við værum að spila æfingaleik í ágúst. Þetta er mjög svekkjandi því þarna eru tvö dýrmæt stig farinn í súginn og sigurinn á móti Val að engu orðinn. Þetta er sárgrætilegt fyrir okkur."

Þetta var aðeins annar sigur FH-liðsins í haust en liðið hefur tapað sjö leikjum á tímabilinu og er nú með fjögur stig, eins og HK.

Valur vann á sama tíma öruggan sigur á Akureyri, 25-12, og Grótta vann fimmtán marka sigur á HK, 36-21.

Stjarnan er enn á toppi deildarinnar með fimmtán stig en Valur og Fram koma næst með fjórtán. Grótta er með þrettán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×