Erlent

Stefnir í uppgjör

Guðjón Helgason skrifar

Útlit er fyrir uppgjör milli fornra fjandvina í Pakistan eftir að Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra, sneri heim úr átta ára útlegð í dag. Hann ætlar sér að koma Pervez Musharraf, forseta, frá völdum.

Stórlöxum í stjórnarandstöðu Pakistans fjölgaði um einn þegar flugvél Sharifs lenti á alþjóðaflugvellinum í Lahor í austurhluta landsins í dag. Þar er forsætisráðherrann fyrrverandi fæddur og uppalinn og því ekki að undra að mótökurnar hafi verið aðrar en þær sem hann fékk á flugvellinum í Íslamabad í september síðastliðnum. Þá var honum strax vísað úr landi.

Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra, og Musharraf, núverandi forseti, hafa lengið eldað grátt silfur saman síðan Musharraf rændi völdum í blóðlausri byltingu 1999.

Við heimkomuna í dag sagðist Sharif ákveðinn í því að losa Pakistana við Musharraf. Hann og flokkur hans krefjast þess að neyðarlögin, sem sett voru fyrir þremur vikum, verði afnumin og stjórnarskrá landsins aftur látin gilda. Verði svo ekki þurfi stjórnarandstöðuflokkar að ákveða hvort þeir bjóði fram í þingkosningunum áttunda janúar næstkomandi.

Fari svo að stjórnarandstöðuflokkar sniðgangi kosningarnar segja stjórnmálaskýrendur að fullyrðingar Musharrafs um að hann sé að leiða landið í átt að lýðræði haldi vart vatni - hvað svo sem líði fullyrðingum um að hann hætti sem æðsti maður pakistanska hersins á næstu dögum.

Annað sem geti valdið honum vandræðum sé framboð og um leið bandalag Sharifs og Benasir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra, gegn honum. Forsetinn hefur þegar gripið til aðgerða og lét handtaka nærri því tvö þúsund stuðningsmenn Sharifs í heimahéraði hans í gærkvöldi og í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×