Sport

Hatton fær á annan milljarð

Ricky Hatton
Ricky Hatton NordicPhotos/GettyImages

Nú er aðeins rúm vika í bardaga ársins í hnefaleikum þegar þeir Ricky Hatton og Floyd Mayweather eigast við í Las Vegas í Bandaríkjunum. Ricky Hatton verður ekki í vandræðum með fjárhaginn eftir bardagann ef marka má frétt breska blaðsins Sun.

Bardagi þessara ósigruðu kappa hefur þannig rakað inn miklu hærri tekjur en reiknað var með bæði í veðbönkum og sjónvarpsrétti. Þetta gerir það að verkum að Ricky Hatton mun líklega fá yfir 1200 milljónir króna fyrir bardagann. Velta í kring um bardagann í Bandaríkjunum og í Bretlandi veltur á tugum milljarða króna.

Aðeins 16,000 sæti voru í boði fyrir bardagann og eru þau löngu uppseld. Það kom þó ekki í veg fyrir að gríðarlegur fjöldi Breta legði á sig að fara til Las Vegas án miða þar sem þeir vonast til að geta nálgast miða á svörtu - og þá væntanlega fyrir morðfjár. Ef þeir nálgast ekki miða geta þeir keypt sig inn á hótelin í grenndinni sem munu bjóða upp á sérstakar útsendingar frá bardaganum á risaskjám og reiknað er með því að einir 18,000 miðar seljist á slíkar sýningar.

Bardagi þeirra Hatton og Mayweather verður sýndur beint á Sýn á laugardagsvköldið eftir viku og um þessar mundir er sjónvarpsstöðin að sýna frábæra raunveruleikaþætti tileinkaða undirbúningi þeirra tveggja fyrir bardagann. Þeir verða svo sýndir allir í einum hnapp á laugardeginum eftir viku.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×