Innlent

Segir Sverri Hermannsson hafa logið í Mannamáli

Halldór Guðbjarnarson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans segir í grein í Morgunblaðinu í dag að Sverrir Hermannsson fyrrverandi bankastjóri Landsbankans hafi farið með lygar í þætti Sigmundar Ernis Rúnassonar Mannamál.

Í þættinum sagði Sverrir meðal annars að Halldór hefði rennt fyrir lax í Hrútafjarðará ásamt félögum sínum.

Þetta segir Halldór að vísu vera rétt, en það hefði vantað að segja hvernig það hefði til komið. Málið hafi verið það að skömmu eftir að Halldór hóf störf við Landsbankann hafi Sverrir komið að máli við hann og sagt að hann væri vanur að bjóða forsætisráðherra (Steingrími Hermannssyni) að veiða með sér í Hrútafjarðará.

Vegna anna þetta sumar kæmist hann ekki og hvort Halldór gæri farið fyrir sig. Það gerði Halldór og aftur næsta sumar, að beiðni Sverris.

Halldór segist hafa vitað að Sverrir væri með Hrútafjarðará á leigu og hafa gengið út frá því að hann væri persónulega að bjóða Steingrími í veiði.

Hann hafi síðar komist að því að bankinn greiddi Sverri háa leigu fyrir ána. Halldór segir að sér hafi verið mjög brugðið við þetta. Hann hafi gengið á fund Sverris og sagt honum að þetta væri siðferðilega ótækt. Hann gæti keypt veiðileyfi í öllum ám landsins, en ekki þessari.

Halldór gerir einnig athugasemdir við það sem Sverrir sagði um Vatnsdalsá í Mannamáli og lýkur grein sinni á þessum orðum; "Það er oft skammt milli mannamáls og lygimála."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×