Innlent

Verksmiðja sem breytir hverareyk í bensín

Hugmyndir eru uppi um að reisa tilraunaverksmiðju í Svartsengi sem breytir hverareyk og útblæstri frá álverum í bensín.

Það er félagið Carbon Recycling International sem stendur að framkvæmdinni en á bak við fyrirtækið stendur meðal annars George Olah, sem hlaut Nóbelsverðlaun í efnafræði árið 1994.

Verksmiðjunni er ætlað að framleiða eldsneyti með því að nýta sér tilraunartækni sem vinnur koltvísýring úr hverareyk. Gangi tilraunin vel áætlar félagið reisa tíu til fimmtán sinnum stærri verksmiðju hér á landi sem verður ætlað að vinna metanól úr útblæstri álvera - sem síðan verður notað til eldsneytisframleiðslu. Samkvæmt forsvarsmönnum Carbon Recycling er reiknað með að tæknin geti minnkað losun koltvísýrings frá álverum um allt að 90 prósent.

Fulltrúar félagsins héldu kynningarfund í gær og þá hittu þeir ennfremur Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, á Bessastöðum.

Vonast er til þess að verksmiðjan verði komin í gagnið undir lok næsta árs og geti framleitt rúmlega fimm þúsund bensínlítra á dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×