Erlent

Chaves hótar til hægri og vinstri

Hugo Chavez, forseti Venesúela.
Hugo Chavez, forseti Venesúela.

Hugo Chavez forseti Venesúela segist munu stöðva olíusölu til Bandaríkjanna ef bandarísk stjórnvöld skipta sér af þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá í Venesúela í dag.

Þá segist hann munu banna starfsemi spænska olíufélagsins Repsol í landinu, komist hægristjórn aftur til valda á Spáni.

Íbúar Venesúela greiða í dag atkvæði um stjórnarskrárbreytingar sem munu, ef þær eru samþykktar, auka mjög völd forseta. Þannig afnema þær takmarkanir á fjölda kjörtímabila sem einn maður getur setið í embætti forseta, flytja stjórn peningamála frá Seðlabankanum til forseta og leyfa honum að takmarka mjög prentfrelsi á neyðartímum.

Almennur vinnutími er styttur úr átta klukkustundum í sex. Chavez segir að atkvæði með breytingunum sé stuðningsyfirlýsing við sig en atkvæði gegn þeim sé stuðningsyfirlýsing við Bush Bandaríkjaforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×