Sport

Hrafnhildur í B-úrslit í Hollandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Anton

Fyrsti keppnisdagur var á opnu stórmóti sem fer fram í Hollandi um helgina. Hrafnhildur Lúthersdóttir náði góðum árangri í 200 m bringusundi.

Hrafnhildur, sem keppir fyrir SH, var annar tveggja íslenskra sundkappa sem kepptu í dag en Sigrún Brá Sverrisdóttir, Fjölni, keppti í 200 m skriðsundi.

Hrafnhildur synti í þriðja riðli undanrásanna í morgun og náði samtals fimmtánda besta tímanum er hún synti á tveimur mínútum og 41,39 sekúndum.

Hún var þó talsvert frá sínu besta en á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug í síðasta mánuði synti hún á 2:33,40 mínútum sem hefði dugað í þriðja besta árangurinn í undanrásunum.

Hún keppir á fyrstu braut í B-úrslitunum sem hafa ekki farið fram þegar þetta er ritað.

Sigrún Brá varð í 26. sæti í undanrásunum í 200 metra skriðsundi en synti á 2:05,91 mínútum í dag. Hún komst því ekki áfram úr undanrásunum en hún keppir næst í 400 m skriðsundi á morgun.

Sigrún Brá var einnig langt frá sínu besta en á ÍM25 í síðasta mánuði synti hún á 2:01,58 mínútum í sömu grein. Það hefði dugað inn í A-úrslitin í dag.

Erla Dögg Haraldsdóttir, ÍRB, mun einnig keppa á morgun en í 200 m fjórsundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×