Handbolti

Sigurmarkið á lokasekúndunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikmaður Fram, með boltann.
Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikmaður Fram, með boltann. Mynd/Anton

Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir var hetja Fram er hún skoraði sigurmark sinna manna gegn Stjörnunni í kvöld á lokasekúndu leiksins.

Fram vann leikinn, 21-20, eftir mikla spennu á lokamínútunum. Stjarnan var í sókn þegar tæp mínúta var til leiksloka og missa boltann þar sem dæmd er leiktöf á liðið.

Fram fer í sókn og tekur leikhlé þegar ellefu sekúndur eru til leiksloka. Einar Jónsson, þjálfari Fram, leggur á ráðinn og kom Guðrún Þóra úr horninu og skoraði sigurmarkið, skömmu áður en lokaflautið gall.

Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og náðu snemma þriggja marka forystu. Rakel Dögg Bragadóttir fór mikinn og skoraði fyrstu fimm af sjö mörkum Stjörnunnar.

En Framarar bitu frá sér og náðu að jafna metin. Þeir náðu svo frumkvæðinu í leiknum undir lok fyrri hálfleiks og tryggðu sér tveggja marka forystu, 13-11.

Rakel Dögg Bragadóttir var langmarkahæst hjá Stjörnunni með ellefu mörk en Stella Sigurðardóttir skoraði sex fyrir Fram.

Fram er því enn taplaust í deildinni og hefur nú tveggja stiga forystu á Stjörnuna á toppi deildarinnar.

Fram er með sautján stig og Stjarnan fimmtán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×