Viðskipti erlent

UBS afskrifar 10 milljarða dala úr bókum sínum

Clive Standish, fjármálastjóri UBS, og Marcel Rohner, forstjóri bankans, ræða málin.
Clive Standish, fjármálastjóri UBS, og Marcel Rohner, forstjóri bankans, ræða málin. Mynd/AFP

Svissneski alþjóðabankinn UBS segist óttast að svo geti farið að hann verði að afskrifa allt að 10 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði 617 milljarða króna, vegna tapaðra útlána í tengslum við bandarísk undirmálslán. Á sama tíma hafa stjórnvöld í Síngapúr ákveðið að kaupa hlut í bankanum fyrir svotil sömu upphæð og nemur útlánatapinu.

Afskriftirnar nú koma til viðbótar fyrri afskriftum bankans og getur leitt til þess að bankinn skili tapi á árinu.

Marcel Rohner, forstjóri UBS, og aðrir stjórnendur bankans, hafa boðað til fundar með fjárfestum bankans á morgun og munu þeir þar fara yfir horfur hans, að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC. Útvarpið bendir á að Rohner hafi tekið við af Peter Wuffli, fyrrum forstjóra UBS, í júlí. Engin ástæða hafi verið gefin fyrir brotthvarfi Wufflis. Hagnaður bankans hafi hins vegar dregist saman síðustu þrjá ársfjórðunga og hafi vogunarsjóður hans tapað allt að þrjú hundruð milljónum dala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×