Körfubolti

Payton langar að spila með Boston

Gary Payton hefði örugglega ekki látið fífla sig á lokamínútunum í leik Boston og Detroit á dögunum
Gary Payton hefði örugglega ekki látið fífla sig á lokamínútunum í leik Boston og Detroit á dögunum NordicPhotos/GettyImages

Leikstjórnandinn Gary Payton er sagður hafa mikinn áhuga á að taka fram skóna að nýju og ganga til liðs við Boston Celtics í NBA deildinni. Payton ákvað að hætta í sumar en hringdi í umboðsmann sinn eftir að hann sá Boston tapa fyrir Detroit í fyrrinótt.

"Hann hringdi í mig og sagði mér að sér sýndist Boston alveg geta notað sig eftir að hann sá leikinn í sjónvarpinu heima hjá sér," sagði umboðsmaður hins kjaftfora leikstjórnanda í samtali við Boston Globe.

Umboðsmaðurinn hefur sett sig í samband við forráðemenn Boston oftar en einu sinni til að kanna áhuga þeirra á Payton, en þeir eru ekki sagðir of hrifnir af hugmyndinni um að fá Payton aftur til Boston þar sem hann spilaði leiktíðina 2004-05.

Það er hinsvegar rétt að Boston vantar nauðsynlega varaleikstjórnanda og því er kannski skiljanlegt að Payton hafi tekið upp símann.

Leikstjórnandinn Rajon Rondo hefur staðið sig ágætlega sem byrjunarliðsmaður hjá Boston í vetur, en þegar hans nýtur ekki við, er fátt um fína drætti í stöðunni.

Það nýtti Chauncey Billups sér sannarlega í stórleik Boston og Detroit á dögunum þar sem hann gabbaði Tony Allen upp úr skónum í lokin og tryggði gestunum sigurinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×