Körfubolti

NBA í nótt: Lakers vann Phoenix

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant og Grant Hill eigast hér við í leiknum í nótt.
Kobe Bryant og Grant Hill eigast hér við í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Þrír leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt þar sem hæst bar sigur LA Lakers á Phoenix Suns í stigamiklum leik, 122-115.

Kobe Bryant skoraði 38 stig fyrir Lakers í leiknum og Andrew Bynum bætti persónulegt met sitt í NBA-deildinni er hann skoraði 28 stig.

Lakers hefur verið á miklu skriði undanfarið en þetta var þriðji sigur liðsins í röð og sá níundi af síðustu ellefu leikjum liðsins. Nú munar aðeins einum sigurleik á Phoenix og Lakers í stöðutöflunni.

Hjá Phoenix var Steve Nash stigahæstur með 24 stig og fjórtán stoðsendingar en liðið hefur nú tapað fimm leikjum af síðustu átta.

Cleveland vann svo í nótt góðan sigur á Miami, 98-82, þrátt fyrir að hafa verið tíu stigum undir í leiknum. LeBron James var með 25 stig og tólf stoðsendingar þrátt fyrir að hafa fengið olnbogaskot frá Shaquille O'Neal í leiknum.

Miami er nú með versta árangur allra liða í Austurdeildinni, með átta sigurleiki og 20 tapleiki.

Portland vann sinn ellefta sigur í röð í nótt með tíu stiga sigri á Seattle, 89-79.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×