Innlent

Össur vill Hafrannsóknarstofnun úr sjávarútvegsráðuneytinu

Kristinn Hrafnsson skrifar

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra vill færa Hafrannsóknarstofnun undan sjávarútvegsráðuneytinu og láta annað ráðuneyti fara með yfirstjórn stofnunarinnar. Hann segir að sovéskt kerfi hafi orðið til í kringum Hafró þar sem þöggun hafi verið beitt með dæmalausum hætti.

Össur viðrar þessa róttæku gagnrýni á bloggsíðu sinni en samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuenyti er ráðherran í sumarfríi. Hann telur að það sé hæpið að innan sama ráðuneytis sé ráðgjöfin um veiðarnar og ákvörðun um hversu mikið er veitt. Hann stingur uppá því að Hafró heyri annað hvort undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti eða undir menntamálaráðuneytið „þar sem háskólarnir fengju það hlutverk að fylgjast með og meta ástand stofna" - eins og hann segir. Svipaða skoðun hefur Einar Oddur Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki, viðrað.

Í pistli sínum segir iðnaðarráðherra að stjórnmálamenn hafi byggt upp sovéskt kerfi kringum Hafró, þar sem dæmalausri þöggun hafi verið beitt á andófsraddir. Nefnir Össur raddir Jóns Kristjánssonar, Tuma Tómassonar, Jóns Gunnars Ottósonar, Kristins Péturssonar, Jónasar Bjarnasonar og Páls Bergþórssonar.

Árni þór Sigurðsson, þingmaður vinstri grænna segir á bloggi sínu að þessi skoðun Össurar rími við stefnu VG en undrast að hann hafi ekki viðrað þær á dögunum þegar breytingar á skipulagi stjórnarráðsins var rædd á sumarþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×